Á stórhátíðum vitnum við gjarnan í Emily Dickinson sem sagði: „Við verðum ekki eldri með hverju árinu – heldur nýrri með hverjum deginum.“ Þetta á sannarlega við um fyrirtækið ÓJ&K-ÍSAM sem er bæði framsækið og síkvikt en á sér langa sögu, eða allt aftur til 1906 þegar Ó. Johnson & Kaaber var stofnað. Þessi næstum 120 ára saga hefur kennt okkur að aðlaga fyrirtækið hratt og vel að breyttum ytri aðstæðum, sækja fram þegar þess er kostur og vera sífellt á tánum varðandi nýjungar. Þess vegna verðum við nýrri með hverjum deginum sem við verðum eldri.
Ólafur Þ. Johnson og Ludvig Kaaber grípa tækifærið þegar sæstrengur er loksins lagður til landsins, klæða sig upp og stofna kompaní. Nú geta þeir pantað vörur frá útlöndum með einu símskeyti í stað þess að bíða eftir haust- eða vorskipinu. Fyrstu höfuðstöðvar nýja fyrirtækisins eru í Lækjargötu 4.
Félagarnir Johnson & Kaaber eru á svaka siglingu þessi árin – kaupa sér meira að segja skonnortur til að flytja varninginn heim frá útlöndum. Það fer reyndar ekki alltaf vel fyrir þeim, skipsskaðar eru tíðir á þessum árum. Sjálfir fara þeir í innkaupaferðir hingað og þangað og bæta sífellt við vöruúrvalið – flytja meira að segja inn vörur frá Bandaríkjunum á árum fyrri heimsstyrjaldar. Og flytja svo sjálft fyrirtækið í Hafnarstræti 1-3, Fálkahúsið svonefnda, árið 1914.
Kaaber-kaffi lítur dagsins ljós. Jafnvel þótt Ludvig hafi flutt sig um set yfir í Landsbankann árið 1918 og selt sinn hlut í fyrirtækinu til Arents Claessens, er kaffið einhverra hluta vegna alltaf kennt við Kaaber. Kaffibaunirnar, sem koma frá Brasilíu, eru brenndar og malaðar í bakhúsi í Hafnarstræti – og seldar um land allt í litlum, hvítum pökkum með blárri rönd. Hið klassíska Ríó kaffi.
Í kreppunni verður kaffi enn dýrara og í raun algjör lúxusvara, svo menn drýgja uppáhellinguna með því að blanda saman við hana svokölluðum kaffibæti. Hann er gerður úr rót chicory-jurtarinnar og gefur nokkuð rammt bragð, að mati nútímamannsins. ÓJ&K fer að framleiða sinn eigin kaffibæti 1932 undir merkjum Ludvig David – og lengst af er hann seldur í járnstauk sem klæddur er rauðum pappír, svo litsterkum að dömurnar nota hann til að rjóða kinnar á stríðsárunum!
Fyrirtækið vasast í öllu mögulegu: flytur inn matvörur, selur tryggingar og framleiðir kaffi og kaffibæti. En ÓJ&K er líka í útflutningi, flytur m.a. út ull, gærur og lýsi. Lýsið láta þeir félagar bræða að Þormóðsstöðum í Skerjafirði – þar sem þessi vörpulegi maður réð ríkjum, Jentoft Olsen.
Líkt og í fyrra stríði, er forsvarsmaður ÓJ&K beðinn um að sjá um innkaup vestanhafs fyrir Landsstjórnina þegar styrjöld brýst aftur út í Evrópu. ÓJ&K starfrækir umboðsskrifstofu í Bandaríkjunum á stríðsárunum, eins og fleiri íslenskar heildsölur. Eftir stríð er verksmiðjuhús byggt fyrir kaffibrennslu og aðra framleiðslu inn við Sætún.
Fyrirtækið flytur ekki aðeins inn matvöru heldur ýmiss konar annan varning s.s. lítil og stór raftæki fyrir heimilin. Sú deild stækkar svo um munar og er hún gerð að sérfyrirtæki, Heimilistæki sf. Raftæki frá Philips og ísskápar og þvottavélar frá Philco seljast í bílförmum – og sjónvörpin eftir að Ríkisútvarpið – Sjónvarp hefur útsendingar árið 1966.
Enn styrkist vöruúrval fyrirtækisins: raftæki, matvara, lyf, fatnaður, DAF bílar, hjúkrunarvörur, barnavörur, snyrtivörur, steinull, brauðristar … eiginlega allt milli himins og jarðar. Og enn er framleiddur kaffibætir þótt aðdáendum hans færi fækkandi. Í pappírsgerðinni eru framleiddar reiknivélarúllur og pappírspokar – og klósettpappír undir vörumerkinu SANI. Fyrirtækið er nú allt flutt inn í Sætún – sem í dag heitir reyndar Guðrúnartún.
ÓJ&K byggir svaka flotta kaffibrennslu við Tunguháls í Reykjavík – meistara Kjarval finnst raunar byggingin einhver sú fallegasta í bænum. Látum það liggja á milli hluta, en þarna verður sjálfvirknin nánast alger; kaffitegundirnar fjórar flæða af færiböndum í verksmiðju „þar sem mannshöndin kemur hvergi nærri,“ eins og segir í auglýsingunni.
Sannarlega hefur margt breyst á þeim 75 árum sem fyrirtækið hefur starfað þegar hallar í haust árið 1981. Lýsisframleiðslan löngu aflögð og dósamatur farinn að víkja fyrir ferskmeti. Tækninni fleygir fram og nú eru tölvur komnar fram á sjónarsviðið. Heimilistæki selja risastórar WANG tölvur sem þykja heldur betur flottar. Fimm árum síðar má svo sjá langar biðraðir utan við verslanir Heimilistækja þegar fyrstu afruglararnir fyrir nýja sjónvarpsstöð, Stöð 2, fara í sölu.
Þegar öldin skríður inn á síðasta áratuginn er ÓJ&K eiginlega orðin umfangsmikil fyrirtækjasamsteypa sem starfar á ýmsum sviðum. Undir móðurfélaginu Esjubergi eru rekstrarfélögin ÓJ&K, Kaffibrennsla ÓJ&K, Heimilistæki, Drangar (bílainnflutningur) og Blikksmiðja ÓJ&K. Þetta er enn fjölskyldufyrirtæki í eigu afkomenda stofnenda og stjórnenda fyrirtækisins í gegnum tíðina og við stjórn eru önnur og þriðja kynslóð afkomenda Ólafs Þ. Johnson. Í hönd fara tímar mikilla breytinga á markaði og við blasir að fyrirtæki landsins þurfa að laga sig að nýjum tímum.
Hver hefði trúað því á árum áður að gömlu keppinautarnir Kaaber og Bragi myndu hefja sambúð? Það gerist hins vegar árið 2000 þegar kaffiframleiðendurnir sunnan og norðan heiða ákveða að sameina krafta sína í orrustunni um hylli kaffineytenda í landinu. Brennslan í Reykjavík er lögð niður, framleiðslan færð til Akureyrar og til verður Nýja kaffibrennslan. Ný, en samt svona gömul … Auk gömlu tegundanna er hafin framleiðsla á kaffi undir vörumerkinu Rúbín.
Í kjölfar erfiðra rekstrarára í kringum aldamótin, er farið í endurskipulagningu félaganna og einföldun á rekstrinum. Ýmsar deildir og dótturfyrirtæki eru seld út úr samsteypunni sem fer „back to basics“. Fókusinn er settur aftur á heildsölu á dagvöru og framleiðslu á kaffi … og reyndar líka „með‘í“ því ÓJ&K eignast hlut í Vilko á Blönduósi sem er auðvitað landsþekkt fyrir vöfflurnar sínar.
Sama ár og fyrirtækið fagnar 100 ára afmæli sínu bætist lítil heildsala í hópinn, Sælkeradreifing. Þetta systurfélag ÓJ&K er sérhæft í sölu á vörum til stóreldhúsa (catering) og stækkar hratt á næstu árum. Skömmu fyrir aldarafmælið flytur fyrirtækið höfuðstöðvar sínar úr Sætúni upp í Árbæ, nánar tiltekið á Tunguháls, við hlið gömlu kaffibrennslunnar.
Þegar 10 ár eru liðin frá efnahagshruninu er að baki enn ein rússíbanareiðin í rekstri þessa reynslubolta, ÓJ&K. Eftir nokkurra ára góðæri sáu menn nánast til botns í kreppunni sem sigldi í kjölfar bankahrunsins. Fyrirtækin í landinu áttu fullt í fangi með að halda sjó eftir gengisfall krónunnar og stunda viðskipti á tíma gjaldeyrishafta og annarra viðskiptahindrana. Öll él styttir samt upp um síðir og auknum straumi ferðamanna til landsins fylgdi uppgangur í veitingareksti og tilheyrandi vöxtur þjónustufyrirtækja.
Sagan í rúma öld er fjölbreytt – eins og íslenskt mannlíf, lítríkt og síkvikt. Og nú er enn horft til þess að flytja fyrirtækið í stærra húsnæði. „Barnið vex en brókin ekki,“ segir einhvers staðar og nú þarf meira rými fyrir vaxandi starfsemi ÓJ&K og Sælkeradreifingar. En þótt þröngt sé um mannskapinn er mórallinn frábær og starfsfólkið samstiga í að ösla mót framtíðinni með gleði og frumkvæði að vopni!